Leikhúsleiðindi

Eitt sinn var tíðin sú að fólk fór í leikhús til að hlægja og skemmta sér.  Settir voru upp gamanleikir og revíur þar sem samtímamál voru tekin fyrir og gerð skemmtilegri.

Í dag koma leikarar í ríkisstyrkt leikhús til þess að fá útrás fyrir illa bælda sýniþörf og önnur persónuleg vandamál.

Heyrði viðtal við einhverja málpípu Þjóðleikhússins áðan.  Hún var gjörsamlega að sleppa sér úr spenningi yfir dagskránni.  Hún lýsti fjálglega með agalega uppstemmdum lýsingarorðum þeim leikritum sem verða sýnd nú í haust.  Þetta byrjaði svo sem ágætlega, á barnaleikriti sem gæti verið gaman að sjá, en svo tók að halla verulega á ógæfuhliðina.

Áfram verði að sýna hálfvitaganginn Leg, Hallgrímur Helgason fær tækifæri til þess að riðlast enn frekar á íslenskunni í einhverjum 80's söngleik og svo eru auðvitað fastir liðir í þunglyndiskategóríunni, Kafka.  Hjálp.

Rúsínan í pylsuendanum er svo "gamanleikurinn" Ívanoff eftir Tsjekhov í leikstjórn áskriftarleikstjórans Balta.  Það á maður að innbyrða á annan í jólum.

Reyndar er þarna verk eftir Guðmund Steinsson, Sólarferð, sem gæti hugsanlega verið gaman að sjá.

Mér mér finnst að setja eigi í lög um Þjóðleikhúsið klásúlu um að eitt verk verði fast á dagskránni og sýnst á hverju ári, leikgerð af Nýju fötum keisarans.  Þjóðleikhússtjóri leiki ávalt keisarann.

Það gæti hugsanlega haft skemmtanagildi fyrir sauðsvartan almúgann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband